Fréttir - Körfubolti

Haukarnir héldu út og flugu burt með tvö stig

Körfubolti | 15.02.2014
Mynd: Halldór Sveinbjörnsson / BB.is
Mynd: Halldór Sveinbjörnsson / BB.is
Haukar mættu KFÍ í kvöld á Ísafirði í Domino's deild karla. Bæði lið mættu fullmönnuð en KFÍ hafði endurheimt Mirko Stefán Virijevic sem missti af leik liðsins við Grindavík eftir að hafa meiðst á móti KR síðastliðinn föstudag.
 
 
Hafnfirðingar voru mikið grimmari í byrjun leiks og eftir fimm og hálfa mínútu var staðan orðin 6-20 fyrir gestina. Heimamenn hrukku þó aðeins í gang eftir að Jón Hrafn Baldvinsson tók sig til og skoraði 5 stig í röð. Ísfirðingar réðu þó ekkert við Hauk Óskarsson sem setti 13 stig í leikhlutanum, þar af þrist um leið og leikhlutanum lauk og tryggði Haukum örugga 18-31 forustu eftir fyrsta leikhluta.
 
Ísfirðingar mættu tilbúnari til leiks í öðrum leikhluta og hjuggu muninn niður 8 stig, 30-38. Eftir það tóku Haukar hins vegar öll völd á vellinum og settu 10 ósvöruð stig í röð og komust 18 stigum yfir.
 
Þegar maður er kominn ofan í holu þá hættir maður að moka. Það höfðu Ísfirðingar að leiðarljósi næstu mínúturnar þegar þeir sundurspiluðu gestina í vörninni og kafsigldu þá í sókninni. Fremstir þar í flokki voru Valur Sigurðsson og Josh Brown sem skoruðu öll stiginn í 13-0 áhlaupi KFÍ en Valur kórónaði góðan leik í leikhlutanum þegar hann setti niður þrist rétt áður en klukkan flautaði hálfleik.
 
Staðan í tepásunni var 43-48 og skyndilega orðinn alvöru leikur í gangi.
 
Heimamenn slökuðu ekkert á klónni í byrjun þriðja leikhluta og náðu forustunni, 55-52, eftir að Valur Sigurðsson hafði sett 2 þrista í röð. Jafnræði var með liðunum út leikhlutann og fór KFÍ með 67-64 forustu inn í fjórða.
 
Mest komst KFÍ í 78-71 eftir þrist frá Jón Hrafni Baldvinssyni en Haukar skoruðu þá 7 stig í röð og náðu forustunni aftur, 77-78, þegar 1:55 voru eftir.
 
Kári Jónsson setti niður risastóran þrist þegar um 40 sekúndur voru eftir og kom Haukum í 77-83. Josh Brown var þó ekki búinn að gefast upp og svaraði hinum megin nokkrum sekúndum seinna með fadeaway þrist með tvo varnarmenn í andlitinu.
 
Lengra komust Ísfirðingar hins vegar ekki og kláraði Terrence Watson leikinn af vítalínunni og 80-85 sigur Hauka staðreynd.
 
Hjá KFÍ var Josh Brown stigahæstur með 31 stig og 10 fráköst, Mirko Stefán kom næstur með 17 stig, Valur Sigurðsson setti 12 stig og Jón Hrafn 10.
 
Hjá Haukum var Watson bestur með 28 stig, 14 fráköst og 4 varin skot. Haukur Óskarsson kom næstur með 17 stig og Kári Jónsson bætti við 10 stigum.
 
 
Umsögn tekin af karfan.is
 
  
Nánar

Stórleikur á Jakanum á föstudagskvöld

Körfubolti | 12.02.2014

Það verður hörkuleikur í boði á föstudagskvöldið 14.febrúar þegar strákarnir úr Haukum koma á Jakann. Fyrri leikur okkar gegn þeim fór 73-67 í Hafnarfirði og var hörkuleikur þar sem við klúrðuðum fjórða leikhluta illa. Það er tilhlökkun í hópnum okkar sem fengu skell í síðasta leik gegn Grindavík og ætla að sýna tennurnar.

 

Það verður enginn svikinn af því að koma á Jakann. Við byrjum á að kveikja undir Muurikka pönnunni hjá meistara Steina sem er galdramaður að mennt þegar kemur að matreiðslu og hefst sú veisla kl.18.30 stundvíslega. Nú þegar fólk hefur borðað sinn Ísborgara þá er það kaffi "a la Unglingaráð" og svo leikur kl.19.15. Ekki dónalegt það.

 

Þeir sem eru utan svæðis og komast ekki á leikinn fá allt beint í auga frá drengjunum úr KFÍ-TV og byrja þeir útsendingu kl.18.50.

 

Áfram KFÍ

Nánar

HORFT TIL FRAMTÍÐAR

Körfubolti | 11.02.2014

Næsta laugardag, 15. febrúar kl. 10.30-14.00, efnir barna- og unglingaráð KFÍ til stefnumótunarfundar í Menntaskólanum á Ísafirði þar sem horft verður til framtíðar í yngri flokka starfi félagsins með það að markmiði að ná fram auknum gæðum í uppbyggingu og starfssemi. Gestur fundarins verður Ívar Ásgrímsson, íþróttastjóri Hauka, sem mun flytja erindi um ýmsa þætti yngri flokka starfsins, t.d. hvað þarf til að ná fram fjölgun og árangri, hæfni þjálfara og tengingu íþrótta við skólastarf. Ívar sér um faglegt starf fyrir allar deildir Hauka og er jafnframt þjálfari meistaraflokks karla í körfubolta og yfirþjálfari yngri flokka félagsins.

 

Þegar Ívar hefur lokið máli sínu verður boðið upp á súpu og brauð en því næst hefst vinna við endurskoðun á Handbók KFÍ frá árinu 2005 en um er að ræða stefnumótun sem var unnin þegar félagið varð fyrirmyndarfélag ÍSÍ. Í formála hennar segir: „Handbók þessi inniheldur stefnu Unglingaráðs Körfuknattleiksfélags Ísafjarðar, unnin skv. verkefni ÍSÍ um fyrirmyndarfélag/-deild. Er þetta fyrsta handbókin sem lítur dagsins ljós og verður hún í stöðugri endurnýjun.“ Er það hlutverk fundarins að endurnýja handbókina og marka stefnuna til næstu ára. Handbókina má finna inni á vefsíðu KFÍ http://kfi.is/skrar_og_skjol/skra/184/  og http://kfi.is/skrar_og_skjol/skra/185/)

 

Við hvetjum alla þá sem áhuga hafa á starfi yngri flokka KFÍ til að mæta á fundinn á laugardaginn og taka þátt í að móta framtíðarstefnu félagsins. Alltaf er rétt að staldra við og skoða hvort haldið sé í rétta átt, hvað er verið að gera vel og hvað má betur fara.

 

Dagskrá:

Kl. 10.30     Birna Lárusdóttir, formaður barna- og unglingaráðs KFÍ, setur fundinn.

Kl. 10.40     Erindi: Ívar Ásgrímsson, íþróttastjóri Hauka

Kl. 11.40     Fyrirspurnir og umræður

Kl. 12.00     Hádegismatur

Kl. 12.30     Stefnumótunarvinna, endurskoðun Handbókar KFÍ frá 2005

Kl. 13.30     Samantekt og niðurstöður

Kl. 14.00     Fundarlok

Nánar

Stór helgi hjá KFÍ

Körfubolti | 07.02.2014
7. flokkur að fara yfir málin.
7. flokkur að fara yfir málin.

Mikið verður um að vera hjá hinum ýmsu flokkum KFÍ núna um helgina.

 

Fyrstir á sviðið fara meistaraflokksstrákarnir okkar og leika við KR í Vesturbænum í kvöld föstudag.  Á sunnudag fara þeir síðan til Grindavíkur að spila við Sigga Þorsteins og félaga.

 

7. flokkurinn okkar tekur þátt í fjölliðamóti í ÍR hellinum (Seljaskóla) og spila á laugardag og sunnudag, fyrsti leikur kl. 15.00,alla dagskrá mótsins má sjá hér.

 

Drengjaflokkurinn fer æfingaferð suður og spilar æfingaleik við ÍR kl. 11.30 einnig í Seljaskóla og svo við Breiðablik kl. 15.00.

 

Svo er Linda okkar Kristjáns að spila með Breiðabliki um helgina, hún æfir hér westra en spilar með Breiðabliki þar sem ekki eru nógu margar að æfa á hennar aldri.  Eru þær að spila gegn Hamar/KR.  Leikurinn fram  fram á laugardag kl. 15.00 í Hveragerði.

 

Hvetjum alla sem vettlingi geta valdið að kíkja á okkar flottu iðkendur og hvetja til sigurs.

Nánar

Sævar lætur af formennsku í KFÍ

Körfubolti | 06.02.2014
Sævar Óskarsson og Óðinn Gestsson.
Sævar Óskarsson og Óðinn Gestsson.

Á fundi stjórnar KFÍ sem haldinn var í gær lét Sævar Óskarsson af störfum sem formaður félagsins en hann hefur setið í stjórn frá árinu 2005, þar af gegnt starfi formanns frá árinu 2010. Af þessu tilefni hefur Sævar sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

 

„Kæru KFÍ félagar.

Enginn ræður sínum næturstað og er staðan hjá fjölskyldu minni nú þannig að mér er nauðsynlegt að einbeita mér að verkefni henni tengdri. Ljóst er að ég verð erlendis þegar síðustu leikir meistaraflokks fara fram á þessum vetri og ekki til taks við uppgjör og lok tímabilsins. Ég hef því ákveðið að víkja sem stjórnarmaður og formaður félagsins þannig að hagsmunir þess skaðist ekki með fjarveru stjórnarmanns. Félagið er ríkt af metnaðarfullu hæfileikafólki sem er tilbúið að vinna að hagsmunum KFÍ og maður kemur í manns stað - það gerir svona ákvörðun léttbærari. Ég vil þakka ykkur öllum; leikmönnum, iðkendum, þjálfurum, foreldrum, stuðningsmönnum og stjórnarfólki fyrir farsælt samstarf á formannsferli mínum. Ég verð áfram í bakvarðasveit félagsins og mun styðja það með ráðum og dáð, hér eftir sem hingað til.

Áfram KFÍ!"

 

Á stjórnarfundinum var Óðinn Gestsson kosinn til að leiða starf stjórnar og félagsins til næsta aðalfundar. Magnús Þór Heimisson kemur nú inn sem aðalmaður í stjórn.

 

Stjórn KFÍ færir Sævari bestu þakkir fyrir mikið og óeigingjarnt starf í þágu félagsins til margra ára. Einnig fylgja velfarnaðaróskir til þeirra hjóna en Margrét, eiginkona Sævars, heldur brátt til Bandaríkjanna til lækninga.

Nánar

Rándýr stig í hús gegn Skallagrím

Körfubolti | 31.01.2014
Josh var sannarlega í stuði í kvöld. Mynd Benedikt Hermannsson/sportmyndir.com
Josh var sannarlega í stuði í kvöld. Mynd Benedikt Hermannsson/sportmyndir.com
KFÍ og Skallagrímur mættust í kvöld í gríðarlega mikilvægum leik í botnbaráttu Domino’s deildar karla. Ísfirðingar voru án Ágústs Angatýssonar, þriðja stigahæsta leikmanns liðsins, en hann varð óvænt veðurtepptur í Reykjavík þegar síðasta flugi dagsins var aflýst þrátt fyrir glimmrandi veður og logn fyrir vestan.
 
Páll Axel Vilbergsson var sjóðandi heitur í byrjun leiks en eftir fimm og hálfa mínútu var staðan KFÍ 4, Paxel 15. Á þessum tímapunkti ákváðu Ísfirðingar að kannski væri sniðugt að setja mann í andlitið á Palla og dugði það til að heimamenn skoruðu 12 af næstu 15 stigum leiksins. Gestirnir leiddu þó með fjórum, 16-20, í lok fyrsta leikhluta en þar af komu 17 stig frá Paxel.
 
Mikil barátta var í leikmönnum beggja liða í fyrsta leikhluta, svo mikil að dómarinn skipaði báðum liðum að færa bekkina aftar til að forða þeim frá leikmönnum og boltum sem komu fljúgandi yfir hliðalínuna.
 
Í öðrum leikhluta var svo komið að Joshua Brown að setja á svið smá sýningu en hann skoraði í honum 16 stig í öllum regnbogans litum og var kominn með 27 stig í hálfleik, tveimur minna en Paxel sem var með 29 stig.
 
Brown hélt áfram að hitta vel í seinni hálfleik og undir hans forustu komust Ísfirðingar aftur yfir í fyrsta sinn síðan á upphafsmínútunum, 49-48, þegar skammt var liðið af þriðja leikhluta. Mest náði KFÍ 10 stiga forustu í fjórða leikhluta en gestirnir hjukku á það á loka mínútunum.
 
Þegar 35 sekúndur voru eftir þá setur Mirko Stefán niður rándýra körfu um leið og skotklukkan gellur og kemur Ísfirðingum 7 stigum yfir, 83-76. Skallagrímur svarar hins vegar með tveimur þriggja stiga körfum á milli þess sem KFÍ tapar boltanum og munurinn skyndilega orðinn 83-82.
 
Þegar 14 sekúndur voru eftir þá brýtur Grétar Ingi Erlendsson á Guðmundi Guðmudssyni þegar hann virðist vera kominn einn fram. Dómararnir dæmdu þó bara venjulega villu og tvö vítaskot. Einhvað virðist pressan hafa farið með Guðmund því hann múraði báðum vítunum og gaf Skallagrím einn loka séns til að vinna leikinn. Benjamin Curtis Smith fékk boltann í lokin, keyrði upp að körfunni en erfitt skot hjá honum geigaði og Mirko Stefán innsiglaði sigurinn með því að hrifsa til sín frákastið.
 
Með sigrinum eru Ísfirðingar jafnir Skallagrím að stigum og einungis 4 stigum á eftir Snæfellingum sem eru í 8. sæti deildarinnar.
 
Maður leiksins var klárlega Joshua Brown. Spurning er hvort Ísfirðingar geti þakkað dómurunum fyrir það því fyrsta verk þeirra fyrir leikinn var að reka Brown úr síðbuxunum sínum. Hvort það hafi leyst þessa sprengju úr læðingi skal ósagt látið en engu síður setti Brown, sem virtist á köflum ekki getað klikkað á skoti, niður 49 stig og jafnaði þar með persónulegt met sitt hér á landi en hann setti einnig 49 stig fyrir KR á móti Snæfell í bikarkeppni KKÍ árið 2012. Hann var einnig einungis 6 stigum frá félagsmeti Clifton Bush sem setti 55 stig fyrir KFÍ á móti Skallagrím í fjórframlengdum leik árið 1999.
 
Mirkó Stefán Virijevic sýndi enn og aftur hvers vegna hann er einn besti íslenski stóri maðurinn í deildinni, þrátt fyrir að vera ekki valinn í stjörnuleikinn, og setti 26 stig og tók 15 fráköst.
 
Páll Axel var langbesti maður Skallagríms en hann setti niður alls 9 þrista og 36 stig. 29 af þessum stigum komu í fyrri hálfleik, flest á móti svæðisvörn Ísfirðinga, en í þeim seinni var hann í stífri gæslu Jón Hrafns Baldvinssonar sem hélt honum í 7 stigum á síðustu 24 mínútunum.
 
Benjamin Curtis Smith vill líklegast gleyma þessu leik sem fyrst þrátt fyrir að enda með þrennu (14 stig, 12 fráköst og 10 stoðsendingar). Hann kom inn í leikinn með meðalstigaskor upp á 39,3 stig og 95% vítanýtingu (38/40) en klikkaði úr 12 fyrstu skotunum sínum og endaði með að hitta úr 3 af 18 skotum. Þar spilaði stórt inn í frábær varnarleikur Vals Sigurðssonar og Guðmundar Guðmundssonar en þeir skiptust á að liggja á honum eins og frakki. Ekki gekk honum betur á vítalínunni en þar setti hann einungis niður 6 af 13 skotum sínum.
 
Grétar Ingi Erlendsson átti einnig fínan leik fyrir Skallagrím en hann setti niður 10 stig en spilaði þó einungis rúmlega 16 mínútur.
 
 
-SS
 
 
Nánar

40 krakkar sóttu körfuboltabúðir KFÍ um helgina

Körfubolti | 28.01.2014
Flottir krakkar í körfuboltabúðum.
Flottir krakkar í körfuboltabúðum.

Körfuboltabúðirnar sem haldnar voru síðustu helgi tókust framar vonum og ekki annað að sjá og heyra en að þau 40 börn sem þar mættu væru hæstánægð. Þau lögðu sig öll fram við æfingar og ljóst að framtíðin er björt hjá félaginu með svona stóran og efnilegan hóp iðkenda. Mirko yfirþjálfari og aðstoðarþjálfararnir hans stóðu sig vel og eiga þakkir skyldar fyrir vel skipulagðar og skemmtilegar æfingabúðir.

 

Félagið vill koma á framfæri þökkum til BÍ og Harðar sem færðu til æfingar hjá sér svo unnt væri að halda körfuboltabúðirnar en án þeirrar velvildar hefði það ekki verið hægt.

Nánar

Litlu körfuboltabúðir KFÍ

Körfubolti | 19.01.2014
Það er fjör í körfuboltabúðum.
Það er fjör í körfuboltabúðum.

Helgina 25. og 26. janúar verða haldnar stuttar körfuboltabúðir fyrir iðkendur KFÍ og aðra áhugasama körfuboltakrakka. Búðirnar eru ætlaðar krökkum frá 9 ára aldri og verður þátttakendum skipt í hópa eftir getu. Yfirþjálfari búðanna verður meistaraflokkskempan Mirko Virijevic en með honum verður einvalalið þjálfara, m.a. úr meistaraflokki KFÍ.

 

Búðirnar fara fram á Torfnesi á laugardag kl. 14-18 og sunnudag kl. 12-16. Boðið verður  upp á hollt og gott nasl á meðan á æfingum stendur ásamt pizzuveislu í lok æfinga á laugardegi. Þátttökukostnaður er aðeins 1.000 krónur.

 

Skráning fer fram á netfangið bil@snerpa.is eða í síma 896 3367.

Nánar

Vorfjarnám 1. 2. og 3. stigs þjálfaramenntunar ÍSÍ

Körfubolti | 18.01.2014

Vorfjarnám þjálfaramenntunar ÍSÍ hefst í febrúar eins og undanfarin ár.  Fjarnám 1. stigs hefst mánudaginn 17. febrúar og nám á 2. og 3. stigi hefst mánudaginn 24. febrúar.  Sérstök athygli er vakin á því að nám á 3. stigi er nú í fyrsta sinn í boði hjá ÍSÍ.  Fjölmargir þjálfarar hafa útskrifast af 2. stigi undanfarin ár og hafa því möguleika nú á að halda áfram námi og auka við réttindi sín.

 

Nám allra stiga er almennur hluti fagþekkingar íþróttaþjálfara og gildir jafnt fyrir allar íþróttagreinar.  Sérgreinahluta námsins sækja þjálfarar hjá viðkomandi sérsamböndum ÍSÍ.  Námið er allt í fjarnámi og þ.a.l. eru engar staðbundnar lotur.

 

Námið hefur verið afar vinsælt undanfarin ár enda gefur það réttindi sem vottuð eru af Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands.  Vaxandi kröfur eru gerðar í samfélaginu um þekkingu og réttindi íþróttaþjálfara og eru íþróttafélög þessi misserin að auka áherslu og kröfur þessu tengdu enda um að ræða einn stærsta og mikilvægasta þáttinn í starfi félaganna. 

 

Meðal þess sem kennt er á þessum námskeiðum má nefna íþróttasálfræði, íþróttameiðsl og forvarnir gegn þeim, næringarfræði, siðfræði, heilsufræði, uppbyggingu líkamans og hæfni hans til þjálfunar, gerð mismunandi þjálfunaráætlana, aðferðir við tækniþjálfun, stjórnunaraðferðir o.fl. o.fl. 

 

Skráning á námskeiðin er á namskeid@isi.is eða í síma 514-4000.  Nemendur á 1. stigi þurfa að hafa lokið grunnskólaprófi.  Nemendur á 2. stigi þurfa að hafa lokið 1. stigi, hafa 6 mánaða starfsreynslu sem íþróttaþjálfarar og hafa gilt skyndihjálparnámskeið, þ.e. að hafa tekið slíkt námskeið á undanförnum 4 árum.  Nemendur á 3. stigi þurfa að hafa lokið 2. stigi, hafa 12 mánaða starfsreynslu sem íþróttaþjálfarar og gilt skyndihjálparnámskið.

 

Verð:  1. stig kr. 25.000.- og eru þá öll námskeiðsgögn innifalin og send á heimilisföng nemenda.  2. stig kr. 18.000.- og námskeiðsgögn frá 1. stigi notuð áfram ásamt ítarefni.  3. stig kr. 18.000.- og námskeiðsgögn frá 1. og 2. stigi notuð áfram ásamt ítarefni frá kennurum. 

 

Rétt er að benda á að þjálfarar innan KFÍ og aðrir sem áhuga hafa á að leggja þjálfun fyrir sig, fá námskeiðsgjaldið endurgreitt frá félaginu að námi loknu.

 

Allar frekari upplýsingar um þjálfaramenntun ÍSÍ veitir Viðar Sigurjónsson Skrifstofustjóri ÍSÍ á Akureyri í síma 460-1467 og/eða á vidar@isi.is

Nánar

Hörkuleikur gegn Keflavík

Körfubolti | 17.01.2014
Jonni var með sitt pláss á leiknum
Jonni var með sitt pláss á leiknum

Það var hálf lemstrað lið KFÍ sem mætti til leiks í kvöld og vitað að róðurinn yrði þungur gegn frábæru liði frá bítlabænum Keflavík. Fyrir leik var Keflavík með 22 stig í öðru sæti og KFÍ með 6 stig í því ellefta. Áður en leikurinn hófst var mínútu þögn til heiðurs og til að minnast Jóns Kristmannssonar fyrrum formanns KFÍ en hann kvaddi okkur rétt fyrir jól og eftir það voru allir tilbúnir í leik.

 

Leikurinn var frekar jafn í fyrsta leikhluta en Keflavík á undan með góðum leik Lewis sem er ekki að byrja sinn feril og kann þetta allt. Eftir mikla baráttu fóru piltarnir að sunnan með fjögurra stiga forskot eftir fyrst leikhluta. Staðan 17-21. Keflavík hóf svo annan leikhlutan af krafti og sóknarleikur KFÍ var ekki beittur. Lewis hélt áfram að krafti og leiddi lið Keflavíkur til hálfleiks með tíu stiga forustu, en Josh Brown átti glæsilega þriggja sitga körfu þegar ein sekúnda var eftir af öðrum leikhluta og gerði það að verkum að koma strákunum af Jakanum til tepásunnar með 10 stig.. Lewis var kominn með 17 stig. Craion 6 og Gunnar Ólafsson með 4 stig. Hjá heimamönum var Josh með 9. Mirko 6 og Gústi og Jón Hrafn 4.

 

Það var eins og eitthvað orkuskot hefði hlaupi í bæði lið í þriðja leikhluta og krafturinn í KFÍ var til staðar.og Josh Brown minnti á sig og skoraði 17 stig í leikhlutanum sem endaði 33-33, en enn voru Keflvíkingar með hendur á stýri. Það var svo allur kraftur úr KFÍ í þem fjórða sem gáfust þó aldrei upp og hentu sér á alla bolta líkt og Keflvíkingar gerðu og var barátta beggja liða til fyrirmyndar.

 

Svo fór að drengirnir frá Keflavík fóru með sigur með sér af Jakanum. Lokatölur 93-75.

 

KFÍ liðið verður ekki dæmt af þessu leik. Það hafa verið breytingar hjá liðinu þar sem hinn magnaði Jason Smith fór í sólina til Braselíu og Josh kominn til að taka sæti hans og á eftir að slípast inn í liðið.Josh er þó greinlega frábær leikmaður og á eftir að reynast KFÍ vel. Mirko, Gústi og Jón Hrafn áttu fína spretti og Gummi, Valur og Jói börđust vel. Hjá Keflavík er ekki dónalegt að eiga Lewis og Craion. Þessir tveir eru frábærir og þeir ásamt Gunnari, Val og Arnari Frey eru ekki í vandræðum að gera góða hluti á vellinum. Ungu strákarnir hjá Keflavík fengu dýrmætar minútur og komust vel frá sínu. Og Aron Freyr og Andri settu báðir þrist við mikinn fögnuð þeirra og meðbræðra þeirra af suðurnesjunum.

 

Stigahæstir hjá Keflavík voru þeir bæður Craion með 32 stig (8 frák.) og Lewis með 25 (12 frák.). Valur bætti við 12 stigum, Gunnar 11 og Arnar Freyr 7.

 

Hjá KFÍ var Josh með 36 stig. Mirko 16 (15 frák.) og Gústi 13 (5 frák.) og Jón Hrafn 7(9 frák.).

 

Þeir Sigmundur Herbertsson, Leifur Garðarsson og Rögnvaldur Hreiðarsson dæmdu þennan leik mjög vel.

 

 

 

Nánar