Fréttir - Knattspyrna

Landsliðsmaður í Vestra

Knattspyrna | 11.07.2017

Þær frábæru fréttir bárust frá knattspyrnusambandi Íslands að Þórður Gunnar Hafþórsson hafi verið valinn í lokahóp U16 ára sem mun taka þátt í Norðurlandamóti dagana 30.júlí - 5.ágúst.  Þórður Gunnar bætist þá í hóp landsliðsmanna okkar félags í knattspyrnu.  Þetta er stórglæsilegur árangur hjá Þórði.  Þórður hefur lagt gríðarlega vinnu á sig við æfingar og er það svo sannarlega að skila sér.  Innilega til hamningju með þennan frábæra árangur.

Nánar

Brjálað að gera í boltanum

Knattspyrna | 03.07.2017
2.fl kvk
2.fl kvk
1 af 7

Fótboltinn er heldur betur farinn að rúlla af stað og hefur verið mikið að gera síðustu vikur hjá krökkunum í boltanum.  Eldri flokkar frá 5.fl og upp í 2.fl hafa verið á fullu á Íslandsmótinum.  Íslandsmótið heldur áfram út allt sumarið.  

Nánar

Vestradagurinn heppnaðist frábærlega!

Knattspyrna | 15.06.2017
Það tók smástund að fá hópinn saman en allt hafðist þetta að lokum.
Það tók smástund að fá hópinn saman en allt hafðist þetta að lokum.
1 af 3

Yngstu flokkar knattspyrnudeildar Vestra hittust á Vestradeginum í gær í blíðskaparveðri. Gleðin var við völd á Torfnesinu þar sem hlaðið var í eina hópmynd af þeim sem gátu mætt og svo í nokkrar liðsmyndir. Síðan voru knattþrautir undir stjórn Jónasar Leifs yfirþjálfara og annarra þjálfara með hjálp frá leikmönnum meistaraflokks karla og 2. og 3. flokks kvenna sem nú tekur þátt í Íslandsmóti í fyrsta sinn í talsverðan tíma. Þá fjölmenntu foreldrar til að fylgjast með krökkunum í góða veðrinu.

Eftir knattþrautir var haldið að grillinu þar sem hesthúsaðar voru 298 pylsur í brauði, auk annars eins magns af safa og íspinnum.

Nú er fótboltasumarið því opinberlega komið og allir komnir út í góða veðrið og ferska loftið. Margir nýir iðkendur létu sjá sig og við bjóðum þá hjartanlega velkomna í Vestrafjölskylduna. Þeir sem hafa hug á að mæta en komust ekki í dag þurfa ekki að láta hugfallast því að allir eru velkomnir hvenær sem er til að kynnast hinni fögru íþrótt. 

Nánar

Hæfileikamótun KSÍ á Akranesi

Knattspyrna | 14.06.2017
Guðmundur Arnar er fyrir miðri mynd.
Guðmundur Arnar er fyrir miðri mynd.

Hæfileikamótun KSÍ fyrir leikmenn sem teljast til U-17 úrtakshóps stendur nú yfir á Akranesi. Vestramaðurinn Guðmundur Arnar Svavarsson er þar fulltrúi félags okkar og er nú hálfnaður með búðirnar. Þær eru óvenju langar núna, standa frá mánudegi til föstudags. 27 strákar eru að æfa saman frá flestum félögum landsins og okkar maður er að standa sig með prýði.

Þetta sýnir að allir þeir sem leggja mikið á sig og sýna áhuga og vilja, geta verið í þessum sömu sporum innan tíðar.

Þjálfarar eru þeir Dean Martin, Þorlákur Árnason og Þorvaldur Örlygsson, allt valinkunnir kappar.

Nánar

Vestradagurinn í dag!

Knattspyrna | 14.06.2017

Við ætlum að halda Vestradaginn í dag, miðvikudaginn 14. júní. Húllumhæið fer fram á gervigrasinu og byrjar kl. 17:00. Þangað eru allir velkomnir, núverandi iðkendur allra flokka frá 8. flokki upp í meistaraflokk beggja kynja, og svo nýir iðkendur sem vilja kynnast hinni fögru íþrótt.

Við ætlum að leika okkur í þrautum og leikjum, grilla og taka liðsmyndir af öllum flokkum. Pabbi og mamma og afi og amma eru líka velkomin.

Þar sem taka á liðsmyndir eru allir sem geta beðnir að mæta í Vestrabúningum.

Áfram Vestri!

Nánar

Aðalfundur knattspyrnudeildar Vestra

Knattspyrna | 10.05.2017

Aðalfundur knattspyrnudeildar Vestra verður haldinn mánudaginn 15. maí nk. kl. 20:00 í vallarhúsinu. Á dagskránni eru hefðbundin aðalfundarstörf. Allir velkomnir.

Nánar

Fótboltamótin í vetur

Knattspyrna | 26.04.2017

Fótboltakrakkarnir hafa í vetur farið á hin ýmsu mót. 7.fl fór í janúar á mót í Keflavík og 6.fl fór um síðustu helgi á TM mót Stjörnunar. Stærstu mótin sem farið er á eru á Akureyri, en þar fara krakkarnir á Goðamót Þórs og Stefnumót KA. Löng hefð er fyrir því að flokkar frá Vestra fari á þessi mót. Mótin eru vel skipulögð og alltaf gaman að fara norður. Undanfarin ár hafa 5.flokkur og upp í 3.flokk farið á mótin en nú fór einnig 6.flokkur drengja. Óvenju góð tíð hefur verið í vetur og var færð og veður í flestum tilfellum mjög gott til ferðalaga og er óneitanlega þægilegra að ferðast um með krakkana vitandi af því.  Krakkarnir stóðu sig frábærlega, allir gerðu sitt allra besta og var framkoma okkar keppenda í alla staði til fyrirmyndar. Krakkarnir komu glaðir heim eftir að hafa verið í frábærum höndum þjálfara og fararstjóra.
Eins og áður taka þjálfarar eftir því hversu óvanir krakkarnir eru að spila á gervigrasi á stórum völlum eftir að hafa æft á parketi allan veturinn. Mótin eru því mjög mikilvæg æfing, bæði til að komast af parketinu og einnig til að sjá hvernig við stöndum gagnvart öðrum. Það er engin launung að mikill munur er á aðstöðu liða yfir veturinn og sést
að klárlega á þessum vetrarmótum. Það er einnig áberandi í vorleikjum okkar að aðrir hafa æft við toppaðstæður og einnig búnir að spila mun fleiri leiki yfir veturinn. Þróun knattspyrnunnar er hröð og mörg knattspyrnulið og eitarfélög eru nú að skoða að reisa fjölnota íþróttahús með gervigrasi. Til að vera samkeppnishæf telja þjálfarar og stjórn Vestra í knattspyrnu það mjög mikilvægt fyrir knattspyrnuiðkendur hér á svæðinu að hér rísi hús sem býður uppá að hægt sé að æfa á gervirgrasi allan ársins hring í öllum veðrum sem er. Enn eru einhveræfingamót eftir áður en sumarvertíðin hefst og er t.d. 7.fl drengja að fara á mót í byrjun maí. Sumarvertíðin fer svo að byrja með trukki í lok maí þegar fyrstu leikir í Íslandsmóti byrja.  Í byrjun maí gefum við út lokaplan fyrir sumarvertíðina og mót sem allir flokkar stefna á að fara á.

Nánar

Birkir Eydal á úrtaksæfingu U-18

Knattspyrna | 03.03.2017

Þær góðu fréttir bárust frá KSÍ að Birkir Eydal hafi verið valinn á úrtaksæfingu fyrir u-18 ára landslið Íslands. Við höfum í raun verið að bíða eftir þessu tækifæri hjá Birki því við vitum hvað í honum býr. Birkir leggur sig alltaf 100% fram á æfingum og er metnaðarfullur strákur sem getur náð langt. Hann mun vafalaust gera sitt allra besta á úrtaksæfingunum. Til hamingju Birkir.

Nánar

3.fl kvk á Stefnumóti KA

Knattspyrna | 07.02.2017

Stelpur í 3.fl og 4.fl kepptu í sameiginlegur liði í 3.fl á Stefnumóti KA á Akureyri um liðna helgi.  Stelpurnar á yngra ári í 4.fl eru þarna að spila sínu fyrstu leiki á stórum velli í 11 manna liði og því stórt stökk að spila með 3.fl.  Stelpurnar stóðu sig ótrulega vel og fengu að kynnast bæði tapi og góðum sigrum.  Mótið er gríðalega mikilvægur undirbúningur fyrir sumarið og verður vonandi hægt að fá fleiri leiki fyrir liðið fyrir sumarið.  Sigþór Snorrason þjálfari var mjög ánægður með stelpurnar í ferðinni.  Fleiri lið frá Vestra fara norður á KA og Þórs mót í vetur og munum við setja inn fréttir af þeim.

Nánar

Guðmundur og Ívar í U-16 úrtak

Knattspyrna | 02.02.2017

 Guðmundur Arnar Svavarsson og Ívar Breki Helgason voru valdir úr röðum Vestra til að taka þátt í úrtaksæfingum fyrir U-16 landslið Íslands í knattspyrnu. Fóru þeir til borgarinnar um síðustu helgi og tóku þátt í æfingum udnir stjórn nýráðins þjálfara U-16, Dean Martin en auk hans voru Þorlákur Árnason og Þorvaldur Örlygsson að þjálfa strákana. Alls tóku 30 drengir þátt í þetta skiptið. Æfingar fóru fram í Kórnum á föstudag, Fífunni á laugardag og Egilshöll á sunnudagsmorguninn. Farið var í gegnum tækniæfingar á föstudegi og sunnudegi en á laugardegi var skipt í lið og spilað á heilan völl.

 Drengirnir stóðu sig með prýði þóþeir þyrftu að spila í öðrum stöðum en þeir eru vanir. Þeir eru sannarlega reynslunni ríkari og gott fyrir þá að sjá hvar þeir standa miðað við önnur félög á landinu.

Þessar úrtaksæfingar voru fyrir drengi á suður- og vesturlandi en á næstunni verða samskonar æfingar haldnar fyrir drengi á norður- og austurlandi.

 

Nánar